Beint á leiðarkerfi vefsins
Merki Iðntæknistofnunar

Fréttir Efnis- og umhverfistæknideild

3.5.2004

Frumathugun á framleiðslu natríum bórhýdríðs á Íslandi lofar góðu

Nýlokið er verkefninu bórhýdríðframleiðsla á Íslandi, er styrkt var af tæknisjóði Rannís.  Tilurð verkefnisins var skoðun á hugsanlegri geymslu vetnis í natríum bórhýdríð efnasambandi.  Stofnað var til samstarfs við bandarískt fyrirtæki að nafni Millennium Cell en það hafði nýlega þróað aðferð til að losa vetni úr slíkum efnasamböndum.  Verkefnið var unnið undir stjórn Íslenskrar NýOrku og í samstarfi við Iðntæknistofnun auk Millennium Cell.  Markmið verkefnisins var að finna heppilegt ferli til framleiðslu á natríum bórhýdríðs á Íslandi og kanna hagkvæmni þess með tilliti til íslenskra orkuauðlinda.

Ákveðið var að einbeita sér að ferlum sem frekar voru nýtnir á hráefni (höfðu hátt "yield") en hugsa síður um orkunotkunina.  Til varð tillaga að svokölluðu endurbættu Schlesingerferli sem byggir að miklu leyti á hefðbundnu framleiðsluferli natríum bórhydríðs en með töluverðum endurbótum þó.  Schlesinger aðferðin byggir á því að vinna natríum bórhydríð úr bórsýru og natríum klóríði.  Hér var breytt út af því og miðað við að natríum málmurinn yrði framleiddur úr natríum hýdroxíði í stað natríum klóríðs eins og venjulega er gert.  Við útreikninga kom í ljós að framleiðsla með þessum hætti getur skilað afurðaverði sem er umtalsvert lægra en heimsmarkaðsverð á sódium bórohydríði. 

Til að vera fullviss um að hér sé um það viðskiptatækifæri að ræða sem það vissulega lítur út fyrir, er nákvæmari rannsókna þörf.  Sérstaklega þarf að skoða framleiðslu natríum málmsins.  Framleiðsla á natríum málmi úr natríum hýdroxíði er ekki þróuð aðferð. Með því að nota himnu úr natríum beta alumina má hugsanlega rafgreina hann við 300 – 350°C þó er töluverð óvissa um endingartíma himnunar, en það getur haft töluverð áhrif á hagkvæmi framleiðslunnar.

Ef áframhaldandi tilraunir með rafgreiningu natríum hýdroxíðs lofa góðu bendir allt til þess að framleiðsla á natríum bórhýdríði með þessu nýja ferli sé mjög samkeppnishæf við þær framleiðsluaðferðir sem notaðar eru í dag.  Hér er því greinilega um mjög áhugaverða nýjung á sviðið orkufreks iðnaðar að ræða sem fyllst ástæða er að skoða betur.


Leiðarkerfi


Slóðin þín:

Fréttir

Stjórnborð

English web Hamur fyrir sjónskerta Prenta þessa síðu Senda þessa síðu

Flýtileiðir